Sumarið gaf okkur forsmekkinn í byrjun vikunnar með sól og sumaryl og ósjálfrátt fylltist maður bjartsýni og gleði. Það var því viðeigandi fyrir okkur í Viðreisn að tilkynna framboð okkar til bæjarstjórnar Hafnarfjarðar á sama tíma.
Ég er uppalinn í leikhúsinu og þar er hamrað á því að mikilvægasta fólkið í leikhúsinu sé áhorfandinn. Í stjórnmálum er mikilvægasta fólkið almenningur, fólkið sem við viljum þjónusta og hverra hagsmuna við viljum standa vörð um. Stundum gleymist þetta í hita leiksins en ekki hjá Viðreisn. Almannahagsmunir framar sérhagsmunum eru og verða ávallt okkar leiðarljós.
Við munum reka jákvæða kosningabaráttu og horfa til framtíðar, að gera góðan bæ betri. Við munum tækla málefnin ekki manneskjuna. Við verðum málefnaleg og munum tala í lausnum. Okkur er sama hvaðan gott kemur svo lengi sem það kemur.
Við hlökkum til að eiga samtal við ykkur íbúa Hafnarfjarðar og hlusta á ykkar sjónarmið og hugmyndir.
Gerum góðan bæ betri og gerum það saman.
Jón Ingi Hákonarson
oddviti Viðreisnar í Hafnarfirði.
Greinin birtist í 17. tbl. Fjarðarfrétta 2018