Allar kosningar eru þær mikilvægustu í sögunni hverju sinni og kannski hefur þetta aldrei átt betur við en nú. Við stöndum á tímamótum þar sem við fáum tækifæri til að leiða þjóðina inn á nýja braut. Ákallið eftir breytingum og nýrri nálgun á stjórn landsins er sterkt og því kalli erum við í Viðreisn reiðubúin að svara.
Viðreisn er frjálslynt stjórnmálaafl sem lætur sig umhverfismál varða, er málsvari umbóta og gagnsæis, fjölbreytni og aukinna tækifæra. Viðreisn vill efla heilbrigðiskerfið og skapa góð starfsskilyrði svo að gæði þjónustu séu ávallt eins og best verði á kosið og með sem skilvirkustum hætti. Geðheilbrigðismál, forvarnir og heilsuefling eru þeir þættir sem huga ber að þegar kemur að almennri lýðheilsu.
Viðreisn vill efla menntakerfið í takt við nýja tíma svo fólk geti vaxið og tekið þátt í nýsköpun á öllum sviðum samfélagsins. Efla þarf rannsóknir og byggja upp skapandi greinar. Menntað ungt fólk er jú hin raunverulega stóriðja okkar tíma sem og framtíðarinnar!
Vextir, verðbólga og biðlistar
Í samtölum okkar við gesti og gangandi þá heyrum við ítrekað sögur frá fólki um þær áskoranir sem það glímir við á hverjum degi. Einstaklingar sem sitja fastir á biðlistum vikum, mánuðum og jafnvel árum saman í heilbrigðiskerfinu. Unga fólkið sem getur ekki flutt að heiman eða flutt heim aftur eftir búsetu erlendis. Óvissuna þegar kemur að húsnæðismálum og rússnesku rúllettuna sem við köllum íbúðarlán. Almenningur og fyrirtæki landsins kalla einfaldlega eftir stöðugleika í efnahagsmálum.
Allt eru þetta áskoranir sem Viðreisn hefur skýr svör við, bæði til skemmri og lengri tíma. Það verður ekki meira lagt á heimili og fyrirtæki, sem nú þegar glíma við þunga byrði vaxta og verðbólgu. Viðreisn leggur áherslu á að farið sé vel með það fé sem almenningur lætur af hendi í formi skattgreiðslna. Finna sóun í kerfum og forgangsraða fjármunum þangað sem brýnust er þörf fyrir þá. Mikilvægt er að höfuð stjórnvalda gangi á undan með góðu fordæmi og því leggur Viðreisn áherslu á að byrja á að fækka ráðuneytum og selja hluta af eignum ríkisins.
Ef þú leggur áherslu á frjálslyndi, stöðugleika í hagkerfinu, jafnrétti og betri lífsgæði þá er Viðreisn skýr valkostur og þá er Viðreisn þinn valkostur, setjum X við C.
Karólína Helga Símonardóttir
4. sæti á lista Viðreisnar í Kraganum