fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirPólitíkVill Hafnarfjörður sparnað í málefnum fatlaðs fólks?

Vill Hafnarfjörður sparnað í málefnum fatlaðs fólks?

Árni Rúnar Þorvaldsson skrifar:

Hingað til hefur bæjarstjórn Hafnarfjarðar verið einhuga um mikilvægi notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) í þjónustu við fatlað fólk. Því eru það vonbrigði að Hafnarfjörður hefur dregist aftur úr nágrannasveitarfélögunum hvað fjármögnun NPA samninga varðar frá því lífskjarasamningarnir voru undirritaðir. Það má ekki gerast að notendur NPA í Hafnarfirði standi verr að vígi en notendur í nágrannasveitarfélögunum. Þess vegna verða kjörnir fulltrúar í Hafnarfirði að leggjast á eitt og auka fjármagnið sem fylgir NPA samningum í samræmi við kjarasamningsbundnar hækkanir þannig að notendur geti staðið við sínar skuldbindingar gagnvart starfsfólki. Ekki er eftir neinu að bíða.

Hafnarfjörður dregst aftur úr öðrum sveitarfélögum

Í vinnu starfshóps um notendastýrða persónulega aðstoð, sem settur var á laggirnar í desember sl. í Hafnarfirði, hefur komið í ljós að Hafnarfjörður hefur dregist aftur úr nágrannasveitarfélögunum hvað fjármögnun NPA samninga varðar. Dæmi eru um að notendur hafi þurft að greiða mismuninn úr eigin vasa. Það er verulegt áhyggjuefni. Bæjarfélagið verður að gera notendum kleift að standa við kjarasamningsbundnar skuldbindingar sínar gagnvart starfsfólki og því verður að bregðast við þessari stöðu sem upp er komin.

Vill meirihlutinn spara aurinn?

Hvernig notendastýrðri persónulegri aðstoð reiðir af í framtíðinni er að miklu leyti undir því komið að kjörnir fulltrúar sveitarfélaganna tali fyrir henni og styðji við hana eftir mætti. Nauðsynlegur liður í því er að tryggja að samningunum fylgi nægjanlegt fjármagn sem gerir notendum kleift að standa við sínar skuldbindingar og að þeir geti ráðið hæft starfsfólk sem fær greitt í samræmi við kjarasamninga. Eða stendur vilji meirihluta Framsóknar – og Sjálfstæðisflokks til þess að spara fjármuni með þessum hætti í málefnum fatlaðs fólks.

Rétturinn til sjálfstæðs lífs án aðgreiningar

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er kveðið á um rétt fatlaðs fólks til að lifa sjálfstæðu lífi án aðgreiningar í samfélaginu. Hugmyndin um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) á sér ríka stoð í þessu ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna. Markmið notendastýrðrar persónulegar aðstoðar er að gera fötluðu fólki kleift að njóta sjálfstæðis til jafns við ófatlað fólk. Notendur þjónustunnar stjórna sjálfir hvernig þjónustu þeir fá, hvar og hvernig hún er veitt og af hverjum. Með öðrum orðum; notendastýrð persónuleg aðstoð miðar að valdeflingu fatlaðs fólks og þátttöku þess í samfélaginu án aðgreiningar. Sveitarfélögin gera samning við notendur um þjónustuna og fjármögnun hennar og það er þá í höndum notendanna sjálfra að skipuleggja þjónustuna en ekki sveitarfélagsins og það er gott mótvægi við þá tilhneigingu kerfisins að skipuleggja starfsemina út frá þörfum kerfisins en ekki notendanna.

Þjónusta á forsendum notenda

Samfylkingin leggur áherslu á að öll velferðarþjónusta grundvallist á virðingu fyrir sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétti hvers einstaklings. Við viljum að Hafnarfjörður sé leiðandi í þjónustu við fatlað fólk og krefjumst þess að kjörnir fulltrúar vinni að því og tryggi notendum úrvalsþjónustu á þeirra forsendum. Þess vegna styðjum við notendastýrða persónulega aðstoð af heilum hug. Karp um krónur og aura má ekki grafa undan svo mikilvægri þjónustu sem notendur og aðstandendur þeirra treysta á alla daga ársins. Auk þess ber okkur að virða gerða kjarasamninga. Kerfið á nefnilega að vera til fyrir fólkið en ekki fyrir sjálft sig – og það verða kjörnir fulltrúar að hafa hugfast í allri sinni nálgun og vinnu í þessum mikilvæga málaflokki.

Árni Rúnar Þorvaldsson,
fulltrúi Samfylkingarinnar í fjölskylduráði

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2