Síðastliðinn áratug eða svo hefur kvíði og þunglyndi meðal ungs fólks aukist svo um munar. Ástæður þessa eru margar og samspil þeirra flókin en staðreyndin er sú að andlegri heilsu unga fólksins okkar hrakar.
Helsta kosningamál Viðreisnar síðastliðið vor var krafan um að ráða inn sálfræðing í hvern skóla sem hefði það hlutverk að hjálpa nemendum að vinna úr vanlíðan og bæta lífsgæði og heilsu unga fólksins. Framsýnir skólar eins og t.d. Menntaskólinn við Hamrahlíð, hafa riðið á vaðið og ráðið inn sálfræðing með góðum árangri.
Það voru mér því mikil vonbrigði að tillögu Viðreisnar um að taka fyrsta skrefið í þessa átt hafi verið hafnað þegar fjárhagsáætlun þessa árs var rædd í bæjarstjórn. Tillaga okkar gengur út á það að ráða inn einn sálfræðin í einn grunnskóla í eitt ár og mæla á markvissan hátt þann árangur sem næðist. Það er ljóst að þessu fylgir ákveðinn kostnaður en hann bliknar í samanburði við þann kostnað sem fellur á bæjarsjóð þegar kvíði og þunglyndi ungs fólks fær að vaxa með þeim afleiðingum að það flosnar upp úr skóla, vinnu og félagsstarfi. Kostnaðurinn flyst einfaldlega milli málaflokka, frá skólum til félags og fjölskylduþjónustunnar.
Unga fólkið okkar á allt það besta skilið.
Jón Ingi Hákonarson
oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.
Greinin birtist í Fjarðarfréttum, bæjarblaði Hafnfirðinga 24. janúar 2019