fbpx
Laugardagur, janúar 4, 2025
HeimUmræðanYfirkeyrsla

Yfirkeyrsla

Ólafur Elínarson, samskiptastjóri Carbfix, hefur ítrekað haldið því fram, þrátt fyrir útskýringar, að Carbfix hafi ekki vottað sig sjálft. Carbfix aðferðin var vottuð af fræðafólki HÍ, því sömu og unnu að verkefninu á sínum tíma. Í framhaldinu voru ritaðar greinar, sem álitnar voru ígildi vottunar. Eiginleg vottun á aðferðarfræðinni hefur hins vegar aldrei farið fram, þrátt fyrir villulýsingar Ólafs. Að vísu hefur orðið til umfjöllun um aðferðina, en í henni felst nákvæmlega engin vottun. Hin meinta aðferðarfræði Carbfix felst í niðurdælingu á CO₂ vegna Orca verkefnisins á Hellisheiði. Verkefnið sem slíkt var nánast algert „fíeskó“ þegar ljóst var að í niðurdælingunni fólust nánast stöðugir jarðskjálftar með tilheyrandi óþægindum fyrir íbúa Hveragerðis um langt skeið.

Allar opinberar birtingar á niðurstöðunum eru birtar af framkvæmdaaðilum, sem hafa lagt sig fram við, a.m.k. að hluta, að afvegaleiða sannleikann.

Í umfjöllun um eldgosin á Reykjanesskaga er m.a. vitnað í Magnús Tumi Guðmundsson, jarðfræðing og prófessor í jarðeðlisfræði í Háskóla Íslands og Þorvald Þórðarson, eldfjallafræðiprófessor, um gang og stöðu eldgosanna. Hið eina rétta, sem frá þeim hefur komið, hingað til a.m.k., er þegar þeir eru staddir framan við myndavélarnar eftir að hafa flogið yfir nýuppkomin gos og svarað: „Það er orðið eldgos“. Nánast allt annað hefur ekki verið mark á takandi.

Það að Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og milliríkjanefnd um loftslagsbreytingar (IPCC) telja föngun gróðurhúsalofttegunda og bindingu þeirra nauðsynlegar sem hluta af aðgerðum gegn hamfarahlýnun segir nákvæmlega ekkert um áhrif slíks á nálæga byggð, líkt og hugmyndir Carbfix í nágrenni Vallarhverfisins í Hafnarfirði gefa til kynna.

Ljóst er að það eru skiptar skoðanir á Coda Terminal verkefninu og þá sérstaklega út frá staðsetningu þess og umfangi. Það er því mikilvægt að halda umræðunni málefnalegri og á beinu brautinni þegar kemur að Carbfix aðferðinni sem hefur einfaldlega ekki verið rannsökuð til hlítar – sérstaklega það er varðar áhrifin á hið nánasta umhverfi fólks.

Ég hef tekið þátt í vísindaverkefnum HÍ og verið útskrifaður þaðan sem slíkur. Þegar fulltrúi Carbfix tjáir sig um vísindalegar staðreyndir minnir það mig á lítilmátlegan sem mígið var yfir, en reynt var samt sem áður að telja honum trú um að þetta væri nú bara rigning.

Ómar Smári Ármannsson,
fv. aðst.yfirlögregluþjónn, fornleifafræðingur
og íbúa á Völlum

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2