fbpx
Laugardagur, desember 21, 2024
target="_blank"
HeimUmræðanBörn og útivera

Börn og útivera

Mikilvægi útiveru og áhrif náttúrunnar á líkamlega og andlega heilsu hefur verið mikið í umræðunni undanfarin ár. Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á að heilsutengdur ávinningur af því að hreyfa sig úti er margfaldur á við það að hreyfa sig inni. Við það eitt að vera úti í náttúrunni getum við lækkað magn streituhormóna í líkamanum, dregið úr kvíða og þunglyndi, bætt svefninn okkar, eflt ónæmiskerfið og svo mætti lengi telja. Þessi vitneskja hefur orðið til þess að nú úir allt og grúir af allskonar námskeiðum úti í náttúrunni og gönguhópar landsins hafa líklega aldrei verið fleiri. Það er útivistarbylgja í gangi á Íslandi og vonandi að sem flestir ætli sér að taka þátt í henni á einhvern hátt. En hvað með börnin okkar, eru þau með? Hefur náttúran og útiveran ekki sömu áhrif á þau og á okkur fullorðna fólkið?

Áhrif útiveru á þroska barna

Áhrif þess að verja tíma úti í náttúrunni hefur eins og áður sagði róandi áhrif á taugakerfið en auk þess fá börnin tækifæri til að nýta öll skynfærin sín til að kanna, upplifa, uppgötva og læra á umhverfið. Náttúran er opin og hvetjandi og býður upp á mun meiri örvun en börn geta fengið í leik innandyra. Í náttúrunni geturðu tekist á við allskonar áskoranir og tækifærin til að efla skynjun og hreyfifærni eru óendanleg. Börn sem verja miklum tíma í leik og upplifun úti í náttúrunni virðast móta með sér betri sjálfsmynd, útsjónarsemi, hugmyndaríki, jákvæðni og þrautseigju. Áhrif útiveru á úthald og hreysti eru einnig óumdeilanleg en í útileik virðast börn hreyfa sig meira og lengur en þegar þau leika sér inni.

Samvera fjölskyldunnar

Rannsóknir sýna að samvera fjölskyldunnar hefur mikið forvarnargildi og lífsstíll foreldra hefur forspárgildi fyrir heilsu barna okkar síðar í lífinu. Það sem við gerum með börnunum okkar í dag hefur áhrif á lifnaðarhætti þeirra og heilsu seinna meir. Þegar börn sjá foreldra sína stunda útivist og hreyfingu er mun líklegra að þau muni sjálf einnig gera það. Auk þess hefur það sýnt sig að samvera fjölskyldunnar utandyra virðist hafa aukið forvarnargildi og skapa sterkari tengsl en samvera innandyra. Upplifanir í náttúrunni skapa dýrmætar minningar sem haldast lífið út.

Góð ráð fyrir útivist fjölskyldunnar

  • Ekki setja ykkur of háleit markmið í byrjun. Leyfið börnunum að taka þátt í að ákveða hvert á að fara og leyfið þeim að ráða aðeins för. Að skoða heiminn með augum barna er ótrúlega skemmtilegt, staldraðu við, hlustaða, skoðaðu og upplifðu.
  • Það er ágætis regla að vera alltaf með eitthvað til að narta í þegar farið er í útivist með börn. Nestistíminn er líka oft hinn eiginlegi tilgangur ferðarinnar hjá börnum og jafnvel nauðsynlegt að stoppa oft á leiðinni til að næra sig.
  • Það getur verið sniðugt að bjóða vini eða vinkonu með í útivist. Börn hafa oft mun meira úthald í göngu þegar þau ganga með öðrum börnum.
  • Pössum okkur hvernig við tölum um veðrið. Mótum ekki skoðanir barnsins með því að vera sífellt að blóta veðrinu. Í slæmu veðri er hægt að búa til bestu minningar og upplifanir og algjör óþarfi að láta veðrið stoppa sig í að fara út. Munið bara að klæða ykkur vel!
  • Síðast en ekki síst þá þarf þetta að vera gaman til að þau vilji endurtaka leikinn. Ef hreyfingin og útiveran er of flókin eða erfið fyrir barnið verður ekki gaman. Það er gaman að takast á við áskoranir og klára eitthvað sem þér finnst erfitt en það er mikilvægt að áskoranirnar séu sanngjarnar.

Hafnarfjörður og útivist

Það þarf ekki að fara langt til að upplifa ævintýri. Í nágrenni Hafnarfjarðar erum við rík af magnaðri náttúru og höfum góðan aðgang að fjölskylduvænum útivistarsvæðum. Hér eru nokkrar vinsælar útivistarperlur.

Hvaleyrarvatn:
Í kringum vatnið eru óteljandi möguleikar fyrir leik og upplifun. Hér er líka hægt að fara í könnunarleiðangra um hina ýmsu stíga sem liggja um skóginn allt í kring.

Valaból:
Er mikill ævintýrastaður sem gaman er að koma á og gangan tiltölulega auðveld.

Stórhöfði:
Lítið fell sunnan Hvaleyrarvatns, auðvelt uppgöngu með fínu útsýni.

Búrfellsgjá:
Auðveld og þægileg gönguleið um ævintýralega náttúru.

Helgafell:
Gangan að fjallinu tekur svolítinn tíma sem tilvalið er að nýta í að finna hjartalaga steina, telja vörðurnar á leiðinni, svipast um eftir fuglum eða hoppa yfir polla. Það eru nokkrar leiðir upp á fellið og útsýnið svíkur engan.

Góð barnæska varir lífið út og það er á ábyrgð okkar allra að börnum sé búið heilbrigt líf. Samveran er forvörn – verum fyrirmyndir og förum út saman, sköpum minningar með börnunum okkar, upplifum og njótum saman.

Kolbrún Kristínardóttir
útivistarkona og sjúkraþjálfari barna og ungmenna.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2