Ratleikur Hafnarfjarðar, ævintýraleikur fyrir alla, unga sem aldna, er nú farinn af stað í 23. sinn og stendur fram í september.
Voru fyrstu ratleikskortin afhent forseta Íslands, hr. Guðna Th. Jóhannessyni og Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstóra sl. föstudag sem tákn um að leikurinn væri hafinn.
Markmið með leiknum er að hvetja til útivistar og náttúruskoðunar í fjölbreyttu upplandi Hafnarfjarðar og nágrenni og um leið vekja athygli á þeim fjölmörgu perlum sem leynast í okkar næsta nágrenni.
Frítt ratleikskort
Þeir sem vilja taka þátt í Ratleik Hafnarfjarðar geta sótt sér frítt ratleikskort sem liggur frammi m.a. í bókasafninu, á bensínstöðvum N1, Fjarðarkaupum, ráðhúsinu og víðar. Á kortinu eru merktir inn 27 staðir en leikurinn skiptist í þrjá styrkleikaflokka, Léttfeta, Göngugarp og Þrautakóng en hverjum er í sjálfsvald sett að nýta leikinn á hvern þann hátt sem hentar best.
Þeir sem taka þátt eru hvattir að skrá sig í Facebook hóp leiksins, og setja inn myndir og frásagnir af þátttökunni. Með kortið að vopni leita þátttakendur af ratleiksmerkjum en á þeim eru lausnarorð sem þátttakendur skrá á ratleikskort sitt og þess vegna er mikilvægt að þessi lausnarorð sjáist aldrei á myndum sem deilt er.
27 merki vítt og breitt um bæjarlandið og víðar
Merkin eru vítt og breytt um bæjarlandið og í ár er einnig farið í land Garðabæjar og einu sinni í land Kópavogs! Þau eru á stöðum sem einhver saga tengist og má lesa um það á ratleikskortinu. Samt eru ratleiksstaðirnir ekki aðalatriðið, heldur leiðin að þeim og því mikilvægt að gefa sér góðan tíma og uppgötva það sem leynist í umhverfi okkar.
Allir sem finna a.m.k. 9 merki geta skilað inn lausnum í haust og keppa um að verða Léttfeti, Göngugarpur eða Þrautakóngur auk þess sem í boði eru útdráttarvinningar fyrir þá sem skilað hafa inn og mæta á uppskeruhátíð sem haldin verður í október.
Hönnunarhúsið ehf. gefur út leikinn í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ og það er skátinn og ritstjórinn Guðni Gíslason sem leggur leikinn í 13. sinn. Ómar Smári Ármannsson, leiðsögumaður, fornleifafræðingur og f.v. aðstoðar yfirlögregluþjónn hefur aðstoðað við val á ratleiksstöðum og hefur hann tekið saman fróðleiksmola. Ómar Smári heldur úti fróðleikssíðunni Ferlir.is sem hefur að geyma gríðarlegan fróðleik um náttúru og mannvist á Reykjanesi og víðar.
Góðir styrktaraðilar
Aðalstyrktaraðili leiksins í ár er hafnfirska fyrirtækið Terra og fjölmörg fyrirtæki hafa styrkt leikinn á ýmsan hátt. Í ár gefur 66°Norður aðalvinninga í hverjum flokki en fyrirtæki sem gefa vinninga eru Origo, Sundlaugar Hafnarfjarðar, Altis, Von mathús, Fjörukráin, Burger-inn, Músik og Sport, Ban Kúnn, Rif, Tilveran, Gróðrarstöðin Þöll og Fjarðarfréttir. Önnur fyrirtæki sem styrkja leikinn eru Fjarðarkaup, Penninn/Eymundsson, Landsnet og HS Veitur.