Ratleikur Hafnarfjarðar er nú hafinn í 27. sinn.
Markmiðið með leiknum er að hvetja til útivistar og náttúruskoðunar í fjölbreyttu upplandi Hafnarfjarðar og um leið að vekja athygli á þeim fjölmörgu perlum sem leynast í okkar næsta nágrenni.
Vinsældir leiksins aukast með hverju árinu og einstaklingar, vinahópar og fjölskyldur keppast við að finna ratleiksmerkin 27 sem staðsett eru víðs vegar í bæjarlandinu.
Ómar Smári Ármannsson, fornleifafræðingur, sem heldur úti fróðleiksvefnum ferlir.is, hefur tekið saman skemmtilegt efni um hvern og einn ratleiksstaðinn og það má því segja að í ár sé sagnaleikur í gangi og myrkfælnir eru hvattir til að klára leikinn áður en fera að dimma í haust.
Fróðleikur um staðina er á kortinu en viðbótarupplýsingar fyrir hvern stað má finna á vefsíðu leiksins.
Þó nokkur merki eru innanbæjar eða örstutt frá byggð og því ættu allir að geta tekið þátt.
Frítt ratleikskort
Ratleikskortin má fá án endurgjalds m.a. á eftirtöldum stöðum:
- Fjarðarkaupum
- Bókasafni Hafnarfjarðar
- Ráðhúsinu
- Bensínstöðvum N1
- Suðurbæjarlaug
- Ásvallalaug
- Sundhöll Hafnarfjarðar
Ratleikur í allt sumar
Leikurinn stendur til 24. september svo nægur tími er til stefnu og þátttakendur eru hvattir til að gefa sér góðan tíma og skoða vel umhverfið á leiðinni.
Til að skila inn lausnum þarf minnst að vera búið að finna 9 merki en dregið er úr öllum innsendum lausnum og fjöldi vinninga í boði.
- Léttfeti: 9 merki
- Göngugarpur: 18 merki
- Þrautakóngur: 27 merki
Fjölmargir vinningar
Veittir eru þrír vinningar í hverjum flokki og á uppskeruhátíðinni verða veittir fjölmargir útdráttarvinningar en aðeins þeir sem mæta á hátíðina eiga möguleika á þeim vinningum.
Fjölmargir hafa styrkt leikinn með því að gefa vinninga: Fjallakofinn, Sundlaugar Hafnarfjarðar, Elín.is, Von mathús, Altis, Rif, Gróðrarstöðin Þöll, Napoli, American Style, Tilveran, Ban Kúnn, Krydd, Kebab Firði, Snjíís, Gormur.is og Músik og sport.
Í samstarfi við Heilsubæinn Hafnarfjörð
Leikurinn er gefinn út af Hönnunarhúsinu ehf. í samstarfi við heilsubæinn Hafnarfjörð síðan árið 2006. Guðni Gíslason, eigandi Hönnunarhússins og skáti, leggur leikinn í 17. sinn en leikurinn er að koma út í 27. sinn.
Aðalstyrktaraðili
Rio Tinto á Íslandi er aðalstyrktaraðili leiksins í ár en auk þeirra sem gefa vinninga hafa eftirtaldir styrkt leikinn: HS veitur, Landsnet, H-Berg, Altis, Gormur.is, Fjarðarkaup, Gróðrarstöðin Þöll og Coda Terminal.
Samskiptavefur þátttakenda
Þeir sem taka þátt í leiknum er boðið að vera í Facebook hópnum Ratleikur Hafnarfjarðar – Þátttakendur þar sem fólk getur skipst á skoðunum og spurt aðra þátttakendur ráða.
Munið að birta ALDREI myndir af ratleiksmerkjunum svo lausnarorðin sjáist!
Sjá nánar á vefsíðu Ratleiks Hafnarfjarðar þar sem einnig má finna Litla Ratleikinn og Ratleik Hvaleyrarvatni.